Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 446  —  425. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að afhenda íslensku þjóðinni faldbúning úr Safni Viktoríu og Alberts í Lundúnum.


Flm.: Birgir Þórarinsson, Bryndís Haraldsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Eyjólfur Ármannsson, Jódís Skúladóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að leita eftir því við bresk stjórnvöld að faldbúningur sá sem Guðrún Skúladóttir saumaði, og er í eigu Safns Viktoríu og Alberts í Lundúnum, verði afhentur íslensku þjóðinni og varðveittur í Þjóðminjasafni Íslands.

Greinargerð.

    Helsta gersemi íslenskra búninga er faldbúningur sem varðveittur er í Safni Viktoríu og Alberts í Lundúnum. Er hann hátíðarbúningur og ríkmannlegasti kvenbúningur íslenskur frá sínum tíma. Á honum er forkunnarfagur útsaumur og fylgir honum mikið og vandað silfur.
    Búninginn keypti grasafræðingurinn William Jackson Hooker þegar hann ferðaðist um Ísland sumarið 1809. Svo óheppilega vildi til að skipið Margaret and Ann, sem átti að flytja Hooker til Bretlands í ágúst 1809, sökk skammt út af Reykjanesi og var talið að kista sem geymdi búninginn hefði glatast með skipinu. Hooker getur þess í ferðabók sinni að mannbjörg hafi orðið og fyrir snarræði brytans hafi búningurinn bjargast í kaupskipið Orion. Skipstjóri á Orion í það sinn var Jørgen Jørgensen, Jörundur hundadagakonungur, sem nefnt hafði sig „alls Íslands verndara og hæstráðanda til sjós og lands“ þetta sumar. Hafði breskur flotaforingi sett Jörund af og var hann á leið frá Íslandi þegar þetta bar að höndum.
    Það var ekki fyrr en árið 1963 að búningurinn uppgötvaðist á ný þegar Elsa E. Guðjónsson, síðar deildarstjóri textíl- og búningafræðideildar Þjóðminjasafns Íslands, fann lýsingu á kvenbúningi í gamalli aðfangaskrá í Safni Viktoríu og Alberts. Kom lýsingin heim og saman við skrá sem Hooker hafði gert um búninginn. Þar kom einnig fram að safnið hefði keypt búninginn árið 1869 af fjölskyldu Hookers. Búningurinn mun hafa verið í eigu Stephensens-ættar og var trúlega brúðarbúningur Ragnheiðar Ólafsdóttur er hún giftist Jónasi Scheving sýslumanni árið 1804. Talið er víst að Guðrún Skúladóttir hafi saumað hann rétt fyrir aldamótin 1800. Búningurinn er sá glæsilegasti sinnar tegundar sem varðveist hefur og er fullbúinn skarti. Hann er jafnframt eini heildstæði faldbúningurinn frá 18. öld sem varðveittur er og sá eini með lausri svuntu og flauelstreyju. Fágætt er að varðveittur skuli heill eða heillegur íslenskur búningur frá því um eða fyrir aldamótin 1800.
    Í ferðabók Hookers er að finna greinargóða lýsingu á búningnum og um leið á faldbúningi hefðarkonu frá seinni hluta 18. aldar. Hooker lýsir öllum hlutum búningsins, m.a. höfuðbúnaði kvenna, krókfaldi, sem hann taldi sérkennilegan og hinn síst klæðilega hluta búningsins. Faldurinn nær átján þumlunga upp fyrir höfuðið. Sá hluti sem hylur höfuðið er umvafinn tveimur laglegum silkiklútum, til að styrkja hann, líkt og vefjarhöttur. Efri hlutinn er stífður með mörgum röðum af títuprjónum. Þrír gylltir faldhnappar úr silfri eru hengdir framan á faldinn. Þessi höfuðbúnaður fylgir ekki með búningnum í safninu heldur yngri gerð sem nefndur er spaðafaldur.
    Búningurinn samanstendur af flauelsupphlut með sex pör af krækjum og áföstu upphlutsfati. Upphlutur er úr grænu flaueli, lagður og bryddaður með gylltum borða. Flíkinni er lokað að framan með röð af krækjum úr gylltu silfri, niður eftir miðjunni, sex hvorum megin. Krækjurnar eru með haganlega upphleyptum blómamyndum. Undan upphlutnum hangir grænt millipils úr fíngerðu klæði. Þar yfir er pils úr bláu og fínu klæði og laus svunta með svuntuhnöppum sem hanga yfir beltið og halda svuntunni fastri. Utan yfir millipilsinu er haft annað pils úr fínum, þéttofnum og bláum dúk. Á þessu pilsi er rauð brydding neðst og ofan við hana breiður bekkur með útsaumuðum blómum í ýmsum litum. Framan á pilsið er hengd svunta, brydduð allt um kring með rauðu. Faldtreyjan er úr flaueli með gylltum líberíborðum, gylltri baldýringu og áföstum kraga. Treyjan kemur utan yfir upphlutinn og hylur hann að nokkru leyti. Saumar á treyju og bekkir á ermum eru lagðir með veglegum gylltum borða og sams konar borði liggur niður brjóstið. Kraginn er hálfur annar þumlungur að breidd og festur við jakkann í hálsmál. Hann er stífur, flatur og skreyttur gylltum útsaumi. Að lokum er langur og veglegur beltislindi úr svörtu flaueli með ásaumuðum gylltum stokkum.
    Hooker nefnir auk þessa hálstrefil, stykki úr hvítu líni sem haft er um hálsinn og þar yfir hálsklút úr silki. Hálsfesti er þrjú og hálft fet að lengd. Hún úr gylltu silfri og vafin þrjá hringi um hálsinn en í henni hangir nisti, einnig úr gylltu silfri, sem gjarnan er með upphafsstöfum eigandans. Sokkar eru úr dökkbláu kambgarni og skór úr sel- eða sauðskinni sem er bundinn yfir fótinn.
    Hooker getur þess að búningurinn hafi verið brúðarklæði, eins og áður er nefnt, og því fylgi honum mikið skart, koffur, herðafesti, kross og nisti. Auk þess sem nefnt hefur verið fékk Hooker hempu lagða svörtum flauelsleggingum frá hálsmáli niður í fald. Á hempu þessari eru tveir hempuskildir með víravirki, laufum og steinsettu fangamarki, SMD. Þá liggja 23 spensli og lykkjur niður boðungana að framan til skrauts.
    Þessi fagri búningur er framúrskarandi dæmi um faldbúning hefðarkonu í lok 18. aldar. Hann var unninn úr bestu fáanlegu efnum með stórkostlegum blómstursaumi og baldýringu. Búninginn má telja skartlegri en gera má ráð fyrir að búningar hafi almennt verið.
    Er Sigurður málari Guðmundsson fór að afla upplýsinga um faldbúninga um 1860 skráði hann nákvæmar upplýsingar eftir heimildarmönnum um gerð búningsins og útlit. Hann hefur eftir frú Ingibjörgu Jónsdóttur, húsfreyju á Bessastöðum, að frú Scheving hafi átt „koffur gilt með víravirki og fest saman með hlekkjum og ekkert undir, krækt að aptan“. Hún átti einnig „blátt pils með blómstursaum eftir Guðrúnu Skúladóttur og fórst fyrir sunnan land 1809 með enskum á Margretu og Ann. Herðafesti mjög stór fórst, var mjög breið og með stórum krossi“. Heimildir sem Sigurður skráði, bæði um búninginn og handverkskonuna Guðrúnu, um það bil hálfri öld eftir hvarf búningsins, benda til þess að um einstakt listaverk og listakonu hafi verið að ræða.
    Árið 1968 var búningurinn lánaður Þjóðminjasafni Íslands til eins árs. Var búningurinn miðpunktur sýningar á íslenskum kvenbúningum. Hann var sendur aftur utan haustið 1969. Búningurinn er eins og áður segir í Safni Viktoríu og Alberts í Lundúnum og vakti þar verðskuldaða athygli safngesta. Hann er nú varðveittur í geymslu í safninu. Fylgir mynd af honum hér að aftan.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.